Endurvinnsla

Endurvinnsla – forsendur góðrar flokkunar

Til þess að flokkun á úrgangi til endurvinnslu gangi sem best og verði sem hagkvæmust er nauðsynlegt að aðgreina vel þau efni sem á að koma til endurnýtingar eða endurvinnslu. Eftirfarandi er yfirlit yfir þá flokkunarmöguleika sem eru í boði á Suðurlandi og helstu atriði sem snerta hvern flokk. Hægt er að komast beint inn á  sveitarfélögin  með því að fara á linkinn sorpmál sveitarfélaga.

Garðaúrgangur til jarðgerðar
Eingöngu grænmetisafgangar, gras, plöntu- og jurtaleifar.
Ekki setja með plast, gler, bönd og grjót.

Brotajárn
Allir málmar. Bílar, vélar, girðingavír og þess háttar.
Fjarlægið rafgeyma og olíur.

Pappír
Dagblöð, tímarit, tölvu-, vélritunar-, ljósritunar-, fax- og skrifpappír.
Ekki bylgjupappi, pappírsþurrkur, límborinn eða vaxhúðaður pappír.

Fernur
Drykkjarfernur af öllum stærðum og gerðum.
Vinsamlegast brjótið fernurnar saman til að minnka umfangið. Það er hægt að koma allt að 11 samanbrotnum 1 lítra fernum fyrir í einni opinni. Ekki setja með plastpoka, eða morgunverðarkornskassa.

Timbur
Timbur má endurnýta á ýmsan hátt, meðal annars er hægt að kurla timbur og nota kurlið í gangstíga og til að hamla illgresisvexti í beðum.
Til þess að hægt sé að nota kurlað timbur þarf að vanda til flokkunar. Leitast skal við að aðgreina timbrið vel frá öðrum úrgangi s.s. múrbroti og málmhlutum, þó þarf ekki að naglhreinsa. Timbur sem ekki hefur verið málað, fúavarið, eða álímt hentar vel til kurlunar.
Ekki setja með spónaplötur með plastfilmu, masónít, húsgögn, málað/fúavarið timbur.
Kurl úr trjám og greinum er eftirsótt efni í stíga og beð. Best er því að aðgreina tré og greinar frá öðru timbri.

Spilliefni
Rafgeymar, rafhlöður, illgresiseitur, skordýraeitur, olíur, leysiefni, sýrur, basar, framköllunarvökvar, málning, úðabrúsar, lakk, hitamælar.
Mikilvægt er að öll spilliefni skili sér á móttökustöðvar sveitafélaganna, annað hvort í upprunalegum umbúðum eða öðrum merktum og þéttum umbúðum.

Jarðefni
Mold, sandur, grjót og múrbrot.

Fatnaður
Rauði krossinn stendur fyrir söfnun á fatnaði. 
 
Flöskur og dósir
Íþrótta- og ungmennafélögin og björgunarsveitirnar eru víða með kassa til móttöku á skilagjaldsumbúðum, sem fjáröflun fyrir sína starfsemi. Sjá undir sorpmál sveitarfélaga.
 
Timbur, plast og pappi
Á nokkrum gámastöðvum eru gámar fyrir timbur, plast og pappa. 
 
Rúllubaggaplast
Leitað er leiða til umhverfisvænnar nýtingar á rúllubaggaplasti.