Samþykktir
Samþykktir Sorpstöðvar Suðurlands bs.
1. Inngangur.
1.1
Sorpstöð Suðurlands bs., skammstafað SOS, er byggðasamlag sveitarfélaga á Suðurlandi í samræmi við 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 vegna samvinnu sveitarfélaganna á sviði úrgangsmála og tengdra málefna. Heimilisfang byggðasamlagsins og varnarþing er að Austurvegi 56 á Selfossi.
Eftirtalin sveitarfélög eiga aðild að byggðasamlaginu:
Ásahreppur (eignarhluti í gegnum Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.)
Bláskógabyggð
Flóahreppur
Grímsnes- og Grafningshreppur
Hrunamannahreppur
Hveragerðisbær
Rangárþing eystra (eignarhluti í gegnum Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.)
Rangárþing ytra (eignarhluti í gegnum Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.)
Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Sveitarfélagið Árborg
Sveitarfélagið Ölfus
1.2
Verkefni byggðasamlagsins eru eftirfarandi:
a. Að greina stöðu úrgangsmála í aðildarsveitarfélögunum, fræða og upplýsa um úrgangsmál, leggja til lausnir og annast umsýslu með afsetningu tiltekinna úrgangsflokka fyrir aðildarsveitarfélög og fyrirtæki á Suðurlandi.
b. Að standa að gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun sorps í aðildarsveitarfélögunum.
c. Að rækja skyldur til vöktunar skv. starfsleyfi fyrir Kirkjuferjuhjáleigu og önnur umsýsla fasteignarinnar.
d. Að fara með eignarhluti byggðasamlagsins í þeim verkefnum sem byggðasamlagið tekur þátt í fyrir hönd aðildarsveitarfélaga og lúta að úrgangsmálum.
Stjórn byggðasamlagsins skal kappkosta að starfseminni sé ávallt hagað þannig að hún uppfylli ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfa. Í starfseminni skal jafnframt stuðlað að þróun í meðhöndlun úrgangs á þann hátt að flokkun og endurvinnsla aukist samfara minnkun þess úrgangs sem til förgunar fer. Þá skal haga starfseminni þannig að hún verði ávallt í fararbroddi og í sátt við umhverfið.
2. Eignarhluti, ábyrgðir og heimildir til að skuldbinda aðildarsveitarfélög
2.1
Eignarhluti hvers aðildarsveitarfélags í byggðasamlaginu skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags, miðað við þann fjölda íbúa sem Hagstofa Íslands birtir 1. janúar ár hvert.
2.2
Aðildarsveitarfélögin bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlagsins í samræmi við eignarhluta sinn í því en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu.
2.3
Byggðasamlaginu er óheimilt að skuldbinda aðildarsveitarfélögin umfram það sem fram kemur í samþykkt þessari, varðandi það sem samþykkt hefur verið á aðalfundi og staðfest er af sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga eða það sem kveðið er á um í samþykktri fjárhagsáætlun eða viðauka við fjárhagsáætlun byggðasamlagsins.
3. Um aðalfundi og aukaaðalfundi
3.1
Aðalfund byggðasamlagsins skal halda fyrir 1. nóvember ár hvert, að jafnaði á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Fundarboð, fundarstjórn og formlegur undirbúningur aðalfunda og aukaaðalfunda byggðasamlagsins er í höndum SASS í samráði við stjórn byggðasamlagsins. Formaður stjórnar byggðasamlagsins getur þó boðað stjórnarfundi án aðkomu SASS og hefur hann prókúruumboð fyrir byggðasamlagið. Á kosningaári sveitarstjórna skal jafnframt halda aukaaðalfund að loknum kosningum og skal SASS boða til fundarins til þess að kjósa í stjórn byggðasamlagsins.
Fundurinn skal haldinn eigi síðar en 10. júlí. Stjórn byggðasamlagsins skal skipuð 5 aðalmönnum og 5 fulltrúum til vara. Varamaður skal kosinn sérstaklega fyrir hvern aðalmann og skal á aðalfundi/aukaaðalfundi jafnframt kjósa formann og varaformann stjórnar. Stjórn byggðasamlagsins starfar frá því að hún er kjörin og fram að kosningadegi næstu sveitarstjórnarkosninga. Komi til þess að kjósa þurfi nýjan stjórnarmann/-menn á kjörtímabili s.s. vegna þess að stjórnarmaður missir kjörgengi sitt í stjórn eða lætur af starfanum af öðrum sökum, skal það gert á aðalfundi eða aukaaðalfundi. Kjörgengir í stjórn byggðasamlagsins eru aðalmenn í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna eða framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaganna.
3.2
Aukaaðalfund skal boða, ef þörf krefur að mati stjórnar byggðasamlagsins, eða ef þriðjungur aðildarsveitarfélaga krefst þess skriflega við formann stjórnar byggðasamlagsins. Sömu reglur gilda um aukaaðalfundi og reglulega aðalfundi nema annað sé sérstaklega tekið fram í samþykkt þessari.
3.3
Stjórn byggðasamlagsins ákveður dagskrá aðalfundar/aukaaðalfundar og skal hún send til aðildarsveitarfélaga með fundarboði og fundargögnum. Fundarboð, dagskrá fundar og fundargögn skulu send aðildarsveitarfélögum með tölvupósti a.m.k. tveimur vikum fyrir fund og skal aðildarsveitarfélag staðfesta móttöku fundarboðs og tilkynna um nöfn aðal- og varafulltrúa sinna sem koma á fundinn, að lágmarki einni viku fyrir fundinn. Aðildarsveitarfélögin sem fara með eignarhlut í gegnum Sorpstöð Rangárvallasýslu tilnefna sameiginlega einn fulltrúa á aðalfund/aukaaðalfund og einn fulltrúa til vara. Fulltrúi þeirra skal uppfylla kröfur til setu á aðalfundi/aukaaðalfundi skv. ákvæði 3.4 í samþykkt þessari, fyrir eitthvert þeirra þriggja sveitarfélaga sem fara með eignarhlut í gegnum Sorpstöð Rangárvallasýslu.
Fulltrúi aðildarsveitarfélags á aðalfundi/aukaaðalfundi skal tilkynna um forföll til formanns stjórnar svo fljótt sem verða má og boða varamann í sinn stað til setu á fundinum.
Setja skal sérstök aðalfundarsköp sem leggja skal fyrir aðalfund eða aukaaðalfund til samþykktar.
Með aðalfundarboði á reglulegan aðalfund að hausti skal senda tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs, endurskoðaða ársreikninga, ársskýrslu stjórnar, skýrslur starfsnefnda, tillögur stjórnar og tillögur sem borist hafa frá aðildarsveitarfélögunum auk annarra fundargagna. Með fundarboði á aukaaðalfund skal senda fundargögn vegna þeirra mála sem ætlunin er að taka fyrir á fundinum. Tillögur og ályktanir sem aðildarsveitarfélögin vilja bera upp á aðalfundi/aukaaðalfundi til afgreiðslu skal senda stjórn byggðasamlagsins a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund/aukaaðalfund. Enga ályktun eða tillögu má bera upp til samþykktar á aðalfundi/aukaaðalfundi, nema hún hafi verið kynnt á dagskrá sem send er með fundarboði eða ef samþykkt er á fundi af öllum fundarmönnum að slík tillaga verði borin upp og afgreidd.
3.4
Til setu á aðalfundi og aukaaðalfundi byggðasamlagsins skal hvert aðildarsveitarfélag tilnefna einn fulltrúa sem fer með atkvæðisrétt aðildarsveitarfélags á fundinum. Þá skal aðildarsveitarfélag jafnframt tilnefna einn fulltrúa til vara sem tekur sæti aðalfulltrúa sveitarfélagsins á aðalfundi eða aukaaðalfundi ef aðalfulltrúi forfallast. Stjórnarmönnum byggðasamlagsins og framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaganna er heimilt að sitja aðalfundi og aukaaðalfundi en hafa eingöngu málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema þeir séu jafnframt kjörnir fulltrúar til setu á fundinum. Stjórn byggðasamlagsins er heimilt að bjóða til aðalfundar/aukaaðalfundar aðilum sem hafa komið að tilteknum verkefnum fyrir byggðasamlagið.
3.5
Fulltrúar aðildarsveitarfélaga á aðalfundum og aukaaðalfundum byggðasamlagsins geta verið:
framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga, aðalmenn í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga og varamenn þeirra. Sveitarstjórnarmaður missir hæfi sitt til þess að vera fulltrúi aðildarsveitarfélags á næsta aðalfundi/aukaaðalfundi eftir að hann hættir setu í sveitarstjórn aðildarsveitarfélags eða missir sæti sem varamaður í sveitarstjórn. Framkvæmdastjóri aðildarsveitarfélags missir hæfi sitt til þess að vera fulltrúi á næsta aðalfundi/aukaaðalfundi eftir að hann lætur af störfum sem framkvæmdastjóri aðildarsveitarfélags.
3.6
Sveitarstjórnarmönnum aðildarsveitarfélaga (aðal- og varamenn), sem ekki eru kjörnir fulltrúar til setu á aðalfundi byggðasamlagsins, framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaga og starfsfólki byggðasamlagsins er heimilt að sitja aðalfund og aukaaðalfund sem áheyrnarfulltrúar. Á fundinum hafa þeir málfrelsi eftir ákvörðun fundarstjóra, en ekki tillögurétt eða atkvæðisrétt.
3.7
Aðalfundur mótar stefnu byggðasamlagsins í samræmi við þau lög og þær reglugerðir sem starfsemi byggðasamlagsins byggir á og ákveður forgangsröðun verkefna. Á aðalfundi er kynntskýrsla um liðið starfsár, endurskoðaðir reikningar og kynnt tillaga að fjárhagsáætlun auk tillögu að gjaldskrá fyrir næsta starfsár. Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi, endurskoðendur eða skoðunarmenn kosnir auk umræðna og atkvæðagreiðslna um önnur mál, sem löglega eru upp borin.
3.8
Aðalfundir og aukaaðalfundir geta verið fjarfundir ef slíkt kemur fram í fundarboði. Þá geta einstakir fundarmenn óskað eftir því að mæta til fundar í gegnum fjarfundarbúnað ef sérstakar ástæður eru fyrir því að þeir geta ekki mætt til fundar á fundarstað. Um framkvæmd fjarfunda gildir auglýsing
ráðherra, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011
4. Um álytkunarhæfi aðafundar/aukaaðalfundar, atkvæðagreiðslu og fundargerðir.
4.1
Aðalfundir og aukaaðalfundir byggðasamlagsins eru ályktunarhæfir hafi verið löglega til þeirra boðað, með nægum fyrirvara og ef mættir fundarmenn ráða yfir meirihluta atkvæða á fundinum. Atkvæðamagn hvers fulltrúa á aðalfundi/aukaaðalfundi skal vera í samræmi við eignarhluta aðildarsveitarfélags, eins og hann er á hverjum tíma.
Á aðalfundi/aukaaðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða varðandi öll mál nema um samþykki tillagna er lúta að breytingu á samþykkt þessari, um slit byggðasamlagsins, um breytingu á aðild sveitarfélaga byggðasamlagsins og um kaup hlutafjár í öðrum fyrirtækjum sem starfa á sviði úrgangsmála en þá telst tillaga samþykkt ef 2/3 hluta atkvæða frá fulltrúum aðildarsveitarfélaga falla með henni. Aðalfundir og aukaaðalfundir eru því ekki ályktunarhæfir varðandi tillögur um breytingu á samþykkt þessari, um slit byggðasamlagsins eða breytingu á aðild sveitarfélaga byggðasamlagsins nema þá séu mættir fundarmenn sem ráða yfir a.m.k. 2/3 hluta atkvæða.
4.2
Halda skal fundargerðir fyrir aðalfundi, aukaaðalfundi og stjórnarfundi byggðasamlagsins í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 og leiðbeiningar ráðherra um ritun gundargerða sveitarstjórna, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Fundargerðir aðalfunda, aukaaðalfunda og stjórnarfunda skulu sendar til aðildarsveitarfélaganna.
5. Um starf stjórnar og starfslið byggðasamlagsins.
5.1
Stjórn byggðasamlagsins ber ábyrgð á allri starfsemi byggðasamlagsins, kemur fram fyrir þess hönd á milli aðalfunda og fylgir fram ákvörðunum sem teknar eru á stjórnarfundum og aðalfundum. Stjórnin fer með stefnumótun á starfi byggðasamlagsins og gerir tillögur að nýjum verkefnum sem eru lögð fyrir aðalfund til ákvörðunar. Stjórnin fer jafnframt með yfirstjórn yfir rekstri byggðasamlagsins og ber ábyrgð á að reksturinn sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þ. á m. að meðferð fjármuna sé samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir byggðasamlagið eða samþykkts viðauka við hana.
5.2
Stjórnarfundi skal halda eftir þörfum en eigi sjaldnar en 6 sinnum á ári. Formaður stjórnar skal boða stjórnarfundi og er formanni heimilt að bjóða á fundi aðilum sem hafa aðkomu að starfsemi byggðasamlagsins. Stjórnarmenn skulu boðaðir á stjórnarfundi með a.m.k. einnar viku fyrirvara með tölvupósti eða með sannanlegum hætti. Stjórnarmenn skulu staðfesta móttöku fundarboðs og tilkynna um forföll svo fljótt sem verða má. Verði forföll stjórnarmanns á stjórnarfund skal aðalmaður sem forfallast boða varamann í sinn stað.
Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef löglega var til hans boðað, með nægum fyrirvara og ef meirihluti stjórnar er mættur. Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Atkvæði formanns stjórnar ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn hjá stjórn byggðasamlagsins. Hafi varaformaður tekið sæti formanns ræður atkvæði hans úrslitum ef atkvæði falla jöfn hjá stjórn.
Stjórnarfundur getur verið fjarfundur ef slíkt kemur fram í fundarboði. Þá geta stjórnarmenn óskað eftir því að mæta til fundar í gegnum fjarfundarbúnað og ákveður formaður hvort hann heimilar slíkt. Um framkvæmd fjarfunda gildir auglýsing ráðherra, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
5.3
Stjórn byggðasamlagsins getur ráðið framkvæmdastjóra og markar þá starfssvið hans og launakjör og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning. Framkvæmdastjóri byggðasamlagsins á sæti á aðalfundi og stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt en fer þó ekki með atkvæðisrétt. Aðra starfsmenn ræður framkvæmdastjóri og veitir þeim lausn frá starfi. Heimild stjórnar þarf að liggja fyrir, ef um fjölgun stöðugilda er að ræða og skal stjórn tryggja að aukin útgjöld séu samþykkt af hálfu aðildarsveitarfélaganna áður en framkvæmdastjóri eða aðrir starfsmenn eru ráðnir. Um starfskjör starfsmanna byggðasamlagsins fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ráðningarsamninga. Allar ráðningar skulu vera innan ramma markaðrar sameiginlegrar launa- og starfsmannastefnu Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), sbr. grein 5.5.
5.4
Stjórn byggðasamlagsins getur gert samning við SASS fyrir hönd byggðasamlagsins um að sinna tilteknum verkefnum s.s. að framfylgja tilteknum ákvörðunum stjórnar, annast um stýringu tiltekinna verkefna sem stjórn ákveður, að annast reikningsskil og fjármálastjórn.
5.5
Starfsmanna- og launastefna er sameiginleg með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Umsjón og þróun launa- og starfsmannastefnunnar er í höndum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í samráði við stjórnir viðkomandi samlaga. Stjórn byggðasamlagsins og SASS bera ábyrgð á að sameiginlegri starfsmanna- og launastefnu verði fylgt. Sértæk starfsmannastefna, sem snýr að fagsviði byggðasamlagsins skal unnin og staðfest af stjórn telji hún þörf á slíkri stefnu.
6. Um fjármál og heimildir til samninga við einkaaðila og aðildarsveitarfélög.
6.1
Tillaga að fjárhagsáætlun byggðasamlagsins fyrir næsta ár skal lögð fyrir reglulegan aðalfund áári hverju. Samþykki aðalfundur tillöguna skal henni vísað til sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna til samþykktar. Fjárhagsáætlun byggðasamlagsins skal hljóta sömu meðferð hjá sveitarstjórn og fjárhagsáætlun sveitarfélags. Fjárhagsáætlun byggðasamlagsins telst ekki samþykkt fyrr en sveitarstjórnir allraaðildarsveitarfélaganna hafa samþykkt hana.
Framlög aðildarsveitarfélaganna til byggðasamlagsins skulu vera mánaðarleg eða eins og tilgreint er í fjárhagsáætlun/viðauka við fjárhagsáætlun byggðasamlagsins.
Ákvarðanir um lántökur eða önnur mál er varða útgjöld umfram samþykkta fjárhagsáætlun byggðasamlagsins þarfnast staðfestingar sveitarstjórna allra aðildarsveitarfélaganna í formi viðauka við fjárhagsáætlun.
Stjórn byggðasamlagsins skal láta vinna ársreikning fyrir byggðasamlagið á ári hverju í samræmi við ákvæði gildandi laga hverju sinni um bókhald og ársreikninga. Ársreikningur byggðasamlagsins skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda sem stjórn ræður til starfsins. Stjórn skal staðfesta
ársreikning á stjórnarfundi fyrir 1. júní ár hvert og senda hann til aðildarsveitarfélaganna til upplýsinga og kynningar. Ársreikning hvers ár skal leggja fram til kynningar á reglulegum aðalfundi byggðasamlagsins.
6.2
Byggðasamlaginu er heimilt að semja við einkaaðila, sbr. 100. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, um framkvæmd á þjónustu og/eða önnur verkefni í tengslum við starfsemina. Samningur við einkaaðila skv. framangreindu skal vera í samræmi við 2. mgr. 100. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en samningurinn skal vera skriflegur og verkefnið afmarkað með skýrum hætti auk endurgjalds fyrir vinnuna. Áður en samningur er gerður skal áætlun um kostnað liggja fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun byggðasamlagsins eða samþykktum viðauka við fjárhagsáætlun.
6.3
Byggðasamlaginu er heimilt að semja við einstök aðildarsveitarfélög eða samtök sveitarfélaga, s.s. SASS, um umsjón afmarkaðra verkefna er tengjast þjónustu við byggðasamlagið, s.s. framkvæmdastjórn, launavinnslu, bókhaldsþjónustu og/eða fjármálaumsýslu, sjá einnig ákvæði 5.4 í samþykkt þessari.
Byggðasamlaginu er jafnframt heimilt að semja við einstök aðildarsveitarfélög eða Sorpstöð Rangárvallasýslu um tiltekin verkefni eftir því sem aðalfundur ákveður.
6.4
Byggðasamlaginu er heimilt að eignast hlut í öðrum fyrirtækjum sem starfa á sviði úrgangsmála. Ákvarðanir um hlutafjárkaup skulu þó njóta stuðnings a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi eða aukaaðalfundi byggðasamlagsins.
7.Um aðild, úrsögn og slit.
7.1
Þau sveitarfélög sem óska eftir aðild að Sorpstöð Suðurlands bs., geta keypt sig inn í byggðasamlagið miðað við eiginfjárstöðu þess næstu áramót á undan og íbúahlutfall þeirra af heildaríbúafjölda á starfssvæði stöðvarinnar miðað við 1. desember árið á undan nema aðalfundur ákveði aðra skilmála. Fái fleiri sveitarfélög aðild að byggðasamlaginu þarf að gera breytingar á samþykkt þessari.
7.2
Um úrgöngu aðildarsveitarfélags úr byggðasamlaginu fer skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr.138/2011, að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í samþykkt þessari. Óski aðildarsveitarfélag að ganga úr byggðasamlaginu skal samþykkt ákvörðun sveitarstjórnar viðkomandi aðildarsveitarfélags tilkynnt formanni stjórnar byggðasamlagsins með skriflegum og sannanlegum hætti eigi síðar en sex mánuðum fyrir næsta reglulega aðalfund byggðasamlagsins. Tilkynning um úrgöngu skal vera rökstudd og ástæður úrsagnarinnar tilgreindar. Berist tilkynning um úrgöngu með of stuttum fyrirvara fyrir aðalfund er heimilt að fresta umfjöllun um hana til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar skv. ákvörðun stjórnar. Tilkynning um úrgöngu skal tekin fyrir á næsta stjórnarfundi eftir að hún berst formanni stjórnar, þar sem hún skal rædd og reynt að leita lausna. Ef samkomulag næst ekki um áframhaldandi aðild sveitarfélags sem óskar úrgöngu úr byggðasamlaginu, skal úrsögnin tekin fyrir á aðalfundi/aukaaðalfundi byggðasamlagsins. Sveitarfélag sem hyggst ganga úr byggðasamlaginu skal taka þátt í starfi og ber áfram ábyrgð á starfsemi byggðasamlagsins ásamt öðrum aðildarsveitarfélögum þar til úrsganga hefur tekið gildi, sbr. neðangreint.
Við úrgöngu úr byggðasamlaginu á sveitarfélag engan endurkröfurétt vegna stofnkostnaðar eða annars kostnaðar sem það hefur lagt til starfsemi byggðasamlagsins. Við innlausn á eignarhlut sveitarfélagsins skulu þau sveitarfélög, sem eftir standa í byggðasamlaginu, greiða sveitarfélaginu, sem gengur úr byggðasamlaginu, nettó hluta bókfærðra eigna, skv. síðasta birta ársreikningi byggðasamlagsins á því ári sem úrgangan tekur gildi, í samræmi við eignarhlut sveitarfélagsins sem gengur út. Sveitarfélögin greiða fyrir eignarhlutann í sömu hlutföllum og eignarhluti þeirra verður í byggðasamlaginu eftir úrgönguna.
Úrganga úr byggðasamlaginu skal taka gildi við lok reikningsárs tveimur árum eftir aðalfundinn þegar tilkynning um úrgönguna var tekin fyrir, með því skilyrði að viðkomandi sveitarfélag sé skuldlaust við byggðasamlagið. Sveitarfélagið sem gengur úr byggðasamlaginu ber einfalda ábyrgð á skuldbindingum byggðasamlagsins vegna þeirra skuldbindinga sem byggðasamlagið hefur undirgengist þar til úrganga hefur tekið gildi og helst þessi ábyrgð sveitarfélagsins sem segir sig úr byggðasamlaginu eftir úrgönguna. Eftir að úrganga hefur tekið gildi ber viðkomandi sveitarfélag ekki ábyrgð á þeim skuldbindingum sem byggðasamlagið undirgengst, nema um það sé sérstaklega samið og slíkt samþykkt af sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags.
7.3
Um slit byggðasamlagsins fer skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í samþykkt þessari. Tillaga aðildarsveitarfélags um slit byggðasamlagsins þarf að berast formanni stjórnar byggðasamlagsins eigi síðar en sex mánuðum fyrir næsta reglulega
aðalfund byggðasamlagsins. Tillagan skal vera rökstudd og ástæður hennar tilgreindar. Tillagan skal tekin fyrir á næsta aðalfundi byggðasamlagsins þar sem hún er rædd og atkvæði greidd um hana.
Tillaga um slit byggðasamlagsins skal borin upp á næsta aðalfundi eftir að tillagan kemur fram, að því gefnu að tillagan hafi komið fram með nægum fyrirvara, annars skal tillagan tekin fyrir á næsta aðalfundi þar á eftir nema að allir fundarmenn á aðalfundi samþykki umfjöllun og atkvæðagreiðslu um tillöguna. Tillaga um slit byggðasamlagsins skal almennt fylgja fundarboði aðalfundar/aukaaðalfundar. Tillaga um slit byggðasamlagsins telst ekki samþykkt á aðalfundi/aukaaðalfundi nema hún sé sé samþykkt með a.m.k. 2/3 hluta atkvæða. Hljóti tillaga um slit byggðasamlagsins samþykki á aðalfundi/aukaaðalfundi byggðasamlagsins skal henni vísað til sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna til staðfestingar. Við slit byggðasamlagsins ganga eignir byggðasamlagsins eða eftir atvikum skuldir, til sveitarfélaganna í samræmi við eignarhluta hvers sveitarfélags eins og hann var 1. janúar á því ári sem slit byggðasamlagsins fara fram.
8. Um breytingar á samþykktum og gildistökuákvæði.
8.1
Breyta má samþykkt þessari á aðalfundi ár hvert eða á aukaaðalfundi. Tillögur um breytingar á samþykkt þessari skulu fylgja fundarboði. Tillögur aðildarsveitarfélaganna um breytingar á samþykkt skulu sendar stjórn byggðasamlagsins og framkvæmdastjóra a.m.k. þremur vikum fyrir aðalfund eða aukaaðalfund.
8.2
Breyting á samþykkt þessari telst samþykkt, ef hún nýtur stuðnings 2/3 hluta atkvæða á ályktunarhæfum aðalfundi og er staðfest af sveitarstjórnum allra aðildarsveitarfélaganna í kjölfarið.
8.3
Samþykkt þessi öðlast gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Við gildistöku samþykktarinnar falla úr gildi eldri samþykktir byggðasamlagsins.
Þannig samþykkt á aðalfundi Sorpstöðvar Suðurlands 27. október 2023
Auglýsinguna úr B-tíðindum má finna hér.